Rannsóknin gæti tekið fjögur ár

Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins.
Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eva Joly tel­ur raun­hæft að hægt verði að ljúka rann­sókn á hruni bank­anna á fjór­um árum ef til­lögu um að sér­stak­ur sak­sókn­ari fái 80 manns til starfa verði hrundið í fram­kvæmd, en þar starfa um 30 manns í dag. Hún sagðist ánægð með hvernig rann­sókn­in hafi gengið fram að þessu.

Joly var í viðtali hjá Agli Helga­syni í þætt­in­um Silfri Eg­ils. Hún ræddi þar tals­vert um þau viðbrögð sem komið hafi fram hjá þeim sem rann­sókn­in bein­ist að. Joly sagði alþekkt í svona mál­um að ásak­an­ir kæmu fram hjá lög­mönn­um sak­born­inga um brot á mann­rétt­ind­um. Reynt væri með öll­um mögu­leg­um leiðum að gera rann­sókn­ina tor­tryggi­lega. Bæði lög­menn og fjöl­miðlar væru notaðir til að draga úr trú­verðug­leika rann­sókn­ar­inn­ar.

Joly sagði að menn sem töluðu um mann­rétt­inda­brot við rann­sókn efna­hags­brota væru að mis­nota mann­rétt­inda­lög­gjöf­ina.  Lög­gjöf­in væri mis­notuð af mönn­um sem hefðu ekki skiln­ing á hvað mann­rétt­indi gengu út á.

Joly sagði að það væri erfiðara að sækja vel­stætt fólk úr miðstétt til saka en t.d. fíkni­efna­sala. Rann­sak­end­ur, sak­sókn­ari og dóms­kerfið væri ekki vön því að fást við hvít­flibb­aglæpi. Þar væru menn fyrst og fremst að fást við þjófa, fíkni­efna­sala og of­beld­is­menn.

Joly sagðist ánægð með rann­sókn sér­staks sak­sókn­ara. Búið væri að vinna vel í rann­sókn margra mála. Er­lend­ir sér­fræðing­ar hefðu hjálpað til og hún sagðist vita að það væri mik­ill vilji í Evr­ópu að hjálpa Íslend­ing­um við að ljúka rann­sókn­inni. Hún sagði að allt yrði gert sem í mann­legu valdi standi til að rann­saka alla stóru bank­ana þrjá, sem féllu.

Joly sagði að sam­ráð hefði verið haft við skila­nefnd­ir bank­anna við rann­sókn mála. Hún sagði eðli­legt að sækja mál á hend­ur stjórn­end­um bank­anna bæði sem saka­mál og einka­mál.

Spurð um rann­sókn á Lands­bank­an­um sagði Joly að Kaupþing hefði verið stærsti bank­inn og því eðli­legt að leggja áherslu á að rann­saka hann. Það kæmi hins veg­ar að Lands­bank­an­um. Hún full­yrti að ekk­ert póli­tískt makk væri í gangi um að hlífa ein­hverj­um sem tengd­ust hruni banka­kerf­is­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert