Rannsóknin gæti tekið fjögur ár

Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins.
Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eva Joly telur raunhæft að hægt verði að ljúka rannsókn á hruni bankanna á fjórum árum ef tillögu um að sérstakur saksóknari fái 80 manns til starfa verði hrundið í framkvæmd, en þar starfa um 30 manns í dag. Hún sagðist ánægð með hvernig rannsóknin hafi gengið fram að þessu.

Joly var í viðtali hjá Agli Helgasyni í þættinum Silfri Egils. Hún ræddi þar talsvert um þau viðbrögð sem komið hafi fram hjá þeim sem rannsóknin beinist að. Joly sagði alþekkt í svona málum að ásakanir kæmu fram hjá lögmönnum sakborninga um brot á mannréttindum. Reynt væri með öllum mögulegum leiðum að gera rannsóknina tortryggilega. Bæði lögmenn og fjölmiðlar væru notaðir til að draga úr trúverðugleika rannsóknarinnar.

Joly sagði að menn sem töluðu um mannréttindabrot við rannsókn efnahagsbrota væru að misnota mannréttindalöggjöfina.  Löggjöfin væri misnotuð af mönnum sem hefðu ekki skilning á hvað mannréttindi gengu út á.

Joly sagði að það væri erfiðara að sækja velstætt fólk úr miðstétt til saka en t.d. fíkniefnasala. Rannsakendur, saksóknari og dómskerfið væri ekki vön því að fást við hvítflibbaglæpi. Þar væru menn fyrst og fremst að fást við þjófa, fíkniefnasala og ofbeldismenn.

Joly sagðist ánægð með rannsókn sérstaks saksóknara. Búið væri að vinna vel í rannsókn margra mála. Erlendir sérfræðingar hefðu hjálpað til og hún sagðist vita að það væri mikill vilji í Evrópu að hjálpa Íslendingum við að ljúka rannsókninni. Hún sagði að allt yrði gert sem í mannlegu valdi standi til að rannsaka alla stóru bankana þrjá, sem féllu.

Joly sagði að samráð hefði verið haft við skilanefndir bankanna við rannsókn mála. Hún sagði eðlilegt að sækja mál á hendur stjórnendum bankanna bæði sem sakamál og einkamál.

Spurð um rannsókn á Landsbankanum sagði Joly að Kaupþing hefði verið stærsti bankinn og því eðlilegt að leggja áherslu á að rannsaka hann. Það kæmi hins vegar að Landsbankanum. Hún fullyrti að ekkert pólitískt makk væri í gangi um að hlífa einhverjum sem tengdust hruni bankakerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert