Samtök atvinnulífsins fagna samkomulagi um kaup Magma Energy á stórum hlut í HS Orku. Með samkomulaginu hefur sterkt erlent fyrirtæki eignast ráðandi hlut í HS Orku og jafnframt lýst yfir áformum um að standa að öflugri uppbyggingu jarðvarmavirkjana hér á landi.
Sérstaklega mun þetta gefa HS Orku tækifæri til að halda áfram á fullum krafti uppbyggingu Reykjanesvirkjunar ásamt frekari rannsóknum á svæðinu, að því er segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.
„Magma Energy hefur jafnframt lýst því yfir að starfsemin hér á landi verði rekin með langtímahagsmuni allra hlutaðeigandi að leiðarljósi. Fjárfesting þessi er mikilvæg í ljósi mikils atvinnuleysis og hægagangs við stórar fjárfestingar að undanförnu. Með henni er vonast til að framkvæmdir til nýtingar orkunnar geti einnig öðlast byr undir báða vængi."