Fréttaskýring : Gætu Botnssúlur bjargað skíðamönnum?

Þegar maður horfir á Botnssúlur í fjarska sér maður að snjór kemur þar fyrr og fer seinna en í Bláfjöllum,“ segir Hermann Valsson, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna og fyrrverandi skíðaþjálfari. Hann er einn þeirra sem vilja að skoðaður verði sá kostur að gera Botnssúlur að framtíðarskíðasvæði suðvesturhornsins.

Þótt Botnssúlur hafi lengi verið í umræðunni sem mögulegt skíðasvæði hafa þar aldrei farið fram snjó- eða vindmælingar. „Það er rosalega freistandi að skoða þetta og það er ýmislegt sem mælir með þessum stað sem framtíðarskíðasvæði. Ef þetta reynist svo ekki fýsilegur kostur nær það ekkert lengra,“ segir Hermann.

Möguleiki á lengri brekkum

Kostur Botnssúlna fram yfir Bláfjöll er fyrst og fremst að þar er möguleiki á mun lengri brekkum, segir Hermann. Í Botnssúlum væri líklega hægt að skíða úr um 1.000 metra hæð og niður í 200 metra hæð. Til samanburðar er 223 metra fallhæð í Kóngsgili, en þar er fallhæðin mest af skíðabrekkum Bláfjalla.

Þá telur Hermann ýmislegt benda til að meiri snjór sé í Botnssúlum en Bláfjöllum en leggur til að mælingar á því fari fram. Vegna snjóleysis var í vetur aðeins hægt að skíða fimm daga í Bláfjöllum og aldrei í Skálafelli. Aldrei fyrr hefur skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins verið jafnsjaldan opið á einum vetri.

Loks bendir Hermann á að Bláfjöll séu á mörkum vatnsverndarsvæðis Reykvíkinga. Mikill hluti vatnsins á vatnsverndarsvæðinu komi upphaflega úr Bláfjöllum og því sé eðlilegt að setja spurningarmerki við hvort heppilegt sé að líta til Bláfjalla sem framtíðarskíðasvæðis. „Hið hreina vatn okkar er allt of mikilvægt til að við tökum einhverja áhættu með það.“

Trausti Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir frekari mælingar þurfa að fara fram áður en hægt sé að svara því hvort Botnssúlur séu heppilegt skíðasvæði. Vitað sé að úrkoman á svæðinu sé næg en óljóst hversu mikið snjói. Þá segir hann Botnssúlur vera illviðrabæli, þekkt fyrir mikið rok. Svæðið sé þó fallegt og því skiljanlega freistandi að skoða þennan kost.

Samt þörf á snjóframleiðslu í Bláfjöllum

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu lýsti Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur nýverið jákvæðri afstöðu til snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Þá hefur Kópavogsbær auglýst tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem m.a. felur í sér að hafin verði snjóframleiðsla í Bláfjöllum.

Hermann segir að jafnvel þótt hugað verði að nýju skíðasvæði fyrir höfuðborgarsvæðið, sé nauðsynlegt að hefja snjóframleiðslu í Bláfjöllum, enda taki nokkur ár að rannsaka og byggja upp nýtt skíðasvæði. „Við getum ekki rekið skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins áfram eins og það er, heldur verðum að grípa til ráðstafana til að halda skíðaíþróttinni gangandi.“

Þá bendir hann á að leiðslur og tæki til snjóframleiðslu megi flytja til. „Þannig að fjárfesting í snjóframleiðslu væri ekki ónýt þótt við fyndum nýtt skíðasvæði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert