Ástæðan fyrir því að slitastjórn Kaupþings ákvað að rifta ákvörðun stjórnar Kaupþings frá því rétt fyrir hrun bankans er sú að slitastjórnin telur að niðurfelling ábyrgðar starfsmanna sé gjafagerningur sem hafi áhrif á stöðu kröfuhafa og rýrðri hlut þeirra.
Að sögn Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, samskiptastjóra skilanefndar Kaupþings, er það hlutverk nefndarinnar að fara yfir öll mál Kaupþings fyrir hrun bankans í október 2008. Meðal annars ákvarðanir stjórnar líkt og í þessu tilviki þar sem mögulega er hægt að innheimta lán.
Slitastjórn Kaupþings banka sendi í morgun um 80 starfsmönnum gamla Kaupþings tilkynningu um riftun á niðurfellingu persónulegra ábyrgða vegna lána sem bankinn veitti þáverandi stjórnendum og lykilstarfsmönnum til hlutabréfakaupa í Kaupþingi.
Niðurfellingin var ákveðin af stjórn Kaupþings banka þann 25. september 2008. Heildarfjárhæð lánanna sem um ræðir er hátt í 32 milljarðar króna. Tæplega 15 milljarðar voru veittir að láni með persónulegri ábyrgð. Langstærsti hluti lánanna var veittur yfirstjórnendum bankans. Segir slitastjórnin, að til marks um það megi nefna að um 20 fyrrum starfsmenn skulda bankanum tæp 90% heildarfjárhæðarinnar en þeir voru flestir lykilstjórnendur bankans og hafa allir látið af störfum.