Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi hann, að gjaldeyrishöftin hefðu í för með sér gríðarlega sóun.
Til marks um það sagði Tryggvi Þór, að nú hagnaðist einhver ólöglega um 121 krónu við sölu hverrar evru á aflandsmarkaði vegna þess mismunar, sem væri á gengi krónunnar á innlendum markaði og aflandsmarkaði. Kaupgengi evru hefði í dag verið 285 krónur á aflandsmarkaði en tæpar 164 krónur í Seðlabankanum.
Tryggvi Þór fór fram á umræðu utan dagskrár á Alþingi um afnám gjaldeyrishaftanna og lýsti þeirri skoðun sinni, að nú sé lag að afnema höftin.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að gjaldeyrishöftin hefðu veitt krónunni mikilvægt skjól og gert kleift að lækka vexti meira en ella. Frekari aðgerða geti verið að vænta sem geri Ísland betur í stakk búið til að ná utan um krónueign erlendra aðila hér og styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn.
Steingrímur sagði, að útfærð áætlun lægi fyrir um hvernig afnema eigi gjaldeyrishöftin í áföngum og sá fyrsti hefði verið framkvæmdur.