Mikið sprengigos er í gangi í Eyjafjallajökli en vísbendingar eru um að heldur hafi dregið úr virkninni frá því hún náði hámarki 13. maí. Töluvert gjóskufall er í nærsveitum og má búast við áframhaldandi gjóskufalli. Búast má við töluverðum sveiflum í styrk gossins.
Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Jarðvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofunnar um gosið í Eyjafjallajökli. Ekkert hefur sést til gosstöðvanna í dag en gosmökkur liggur í 6-7 km hæð samkvæmt veðurratsjá og rís beint upp af fjallinu.
Tilkynningar um öskufall hafa komið frá Hæli í Gnúpverjahreppi, á
veginum að Sultartangavirkjun og Laugarási í Biskupstungum þar sem
askan var örfín og grá. Þá barst Veðurstofunni tilkynning um að drunur hefðu heyrst í Vallarhverfi í Hafnarfirði. Stöðugar eldingar, eða hátt í 10 á klukkustund, hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar.