Fyrrverandi fólkvangsvörður í Reykjanesfólkvangi segir nauðsynlegt að skilgreina það svæði innan Reykjanesfólkvangs þar sem leyfa megi akstur torfærumótorhjóla.
Þó að hún sé gagnrýnin á framferði margra hjólreiðamanna verði menn að horfast í augu við staðreyndir. „Þessi íþrótt er komin til að vera,“ sagði Soffía Helga Valsdóttir, sem var fólkvangsvörður sumrin 2006-2008. Helst kæmi til greina að leyfa akstur á svæðum sem hefur þegar verið spillt, s.s. í gömlum námum.
Í Reykjanesfólkvangi eru víða ummerki um utanvegaakstur mótorhjólamanna. Sums staðar, t.d. eftir endilöngum Sveifluhálsi, hafa myndast áberandi slóðar, í óþökk landeigenda og fólkvangsins, þar sem mótorhjólamenn aka. Mótorhjólamenn benda gjarnan á að þeir séu ekki að aka utan vega, heldur eftir slóðum, jafnvel þótt slóðarnir hafi aldrei verið merktir á korti sem slóðar fyrir vélknúna umferð.
Sums staðar er líka ekið um allar trissur, s.s. í hlíð fyrir ofan gamlar námur við norðurenda Sveifluháls, eins og sést á mynd sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Soffía Helga sagði að hún og forveri hennar í starfi hefðu ákveðið að beina hjólamönnum í gömlu námuna heldur en að þeir væru „út um allt“, þó að akstur væri þar í raun bannaður. Hún hefði tekið skýrt fram að ekki mætti aka í brekkunni fyrir ofan námuna. „Þeir eru búnir að spæna hlíðina í kringum þessar námur.“
Sjáítarlega umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.