Ríkisstjórnin mun fjalla um HS Orku

Orkuver HS Orku.
Orkuver HS Orku. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að fjallað verði á fundi ríkisstjórnarinnar um sölu Geysis Green Energy á hlut sínum í HS Orku til Magma Energy.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím hvers vegna stjórnvöld hefðu ekki brugðist við fyrr í ljósi þess, að salan á HS Orku hefði lengi verið í farvatninu.

Steingrímur sagði, að stjórnvöld hefðu óskað eftir því um helgina að sölunni yrði slegið á frest en þeim óskum hefði verið hafnað. Í svari við fyrirspurn Þráins Bertelssonar, óháðs þingmanns, sagði Steingrímur að ríkisstjórnin muni fjalla um málið á morgun en ekki í því samhengi, sem hún hefði óskað eftir, því að sölunni hefði verið frestað.

„Ég held að öll ábyrg stjórnvöld hljóti að áskilja sér allan rétt við aðstæður af þessu tagi, hvernig sem því verður svo fyrir komið í löggjöf eða með öðrum hætti," sagði Steingrímur. Hann sagði að það hefði dregist að móta hér sterka löggjöf sem verði auðlindirnar og tryggði að rentan renni til þjóðarinnar óháð eignarhaldi á auðlindum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hvort ekki væri ljóst að auðlindin sem um væri að ræða, orkan, væri enn í samfélagslegri eigu. Össur sagði að það væri alveg skýrt og það væri einnig algerlega skýrt að ekki væri hægt að selja auðlindir sem eru í samfélagslegri eigu. 

Ragnheiður Elín sagðist í ljósi þessara svara utanríkisráðherra ekki skilja ummæli umhverfisráðherra í fréttum í gærkvöldi um að verið væri að setja auðlindir Íslendinga á sölu á alþjóðlegu markaðstorgi. Össur sagðist telja að afstaða umhverfisráðherra byggðist á andstöðu við ákvæði laga, sem heimili að leigja nýtingarrétt á auðlindum til allt að 65 ára.

Sigurður Ingi Jóhannesson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að það hefði lengi verið á stefnuskrá flokksins að yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar verði tryggð í stjórnarskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert