Auglýst eftir sérfræðingum í rannsóknarnefnd

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Borgarstjórn Reykjavíkurborgar ákvað það í dag að auglýsa eftir sérfræðingum í þriggja manna nefnd til að gera rannsókn  á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, og fól borgarráði að skipa í nefndina á fundi sínum 27. maí nk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VG.

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi VG talaði fyrir tillögunni en borgarráð samþykkti nýlega tillögu hans um viðamikla rannsókn á stjórnsýslu, stjórnkerfi, og aðkomu stjórnmálafólks, að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum.

Nefndinni ber að rannsaka hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum og  hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu og hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar og hagnast á tengslum við hana.

Jafnframt þessu á nefndin á að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar  hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokkstengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

Í framhaldi á þessu á nefndin að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert