Fréttaskýring : Hætt við tugi ráðstefna á Íslandi

Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur áhrif á ráðstefnuhald
Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur áhrif á ráðstefnuhald mbl.is/Rax

Frá því eldgos hófst í Eyjafjallajökli hefur verið hætt við töluverðan fjölda ráðstefna og funda sem halda átti hér á landi. Vegna stopulla flugsamgangna hætta alþjóðleg fyrirtæki við að halda fundi á Íslandi, enda hrædd um að starfsmenn komist seint aftur til vinnu, og samtök vilja ekki bera ábyrgð á að gestir á ráðstefnum þeirra verði strandaglópar hér á landi.

Tugum ráðstefna og funda sem halda átti á Grand Hótel Reykjavík hefur til að mynda verið frestað eða einfaldlega fluttir til annarra landa. „Þetta veldur mjög miklu tapi fyrir hótelið,“ segir Ingólfur Einarsson, aðstoðarhótelstjóri. Einnig hafa margir einstaklingar afbókað gistingu eftir að gosið hófst. Aðspurður segir hann þetta þó ekki verða banabita hótelsins. „En þetta er mikill skellur.“

Getur lamað fyrirtækin

Karólína Ómarsdóttir, sem starfar við sölu á ráðstefnudeild Hilton Reykjavík Nordica, bendir á að nýlega hafi starfsemi norsks fyrirtækis meira eða minna lamast í tvo daga þar sem starfsmenn þess voru strandaglópar eftir að hafa setið fund á Íslandi. Því sé ekki undarlegt að fyrirtæki hugsi sig tvisvar um áður en þau ákveða að senda starfsmenn á fundi hingað til lands, enda óvíst hvenær þeir komast aftur til starfa.

Einungis hefur þó verið hætt við eina ráðstefnu á Hilton, en ýmsir viðburðir sem áttu að vera í vor hafa verið færðir fram á haust. „Það er mjög mikil óvissa og auðvitað skynjum við það á þeim kúnnum sem við höfum verið í samskiptum við og skipulagt ráðstefnur með í allan vetur,“ segir Karólína.

Frá því að gosið hófst hefur einni ráðstefnu sem skipulögð var af Congress Reykjavík verið frestað, en hún átti að fara fram í apríl. Að sögn Láru B. Pétursdóttur, eiganda og framkvæmdastjóra fyrirtækisins, stendur þó til að reyna að halda ráðstefnuna í september. Einnig féll lítill fundur niður vegna áhrifa frá eldgosinu.

Þá segir Lára að færri gestir komi á hverja ráðstefnu en áður. „Sumir gestir hætta við vegna þess að þeir eru hræddir um að komast ekki aftur heim til sín.“ Eins hringi gestir og spyrjist fyrir um ástandið. „Margir halda náttúrulega að hér sé allt á kafi í ösku og að það gangi allir um með grímur. En við reynum bara að upplýsa og róa fólk. Það hættir oft við að afboða þegar það fær réttar upplýsingar.“

Ingólfur tekur undir mikilvægi þess að réttum upplýsingum um ástandið sé komið til útlanda. Hann gagnrýnir hrakspár í erlendum fjölmiðlum og óþarfa getgátur um Kötlugos.

Spáir góðu næsta ári

„Við sáum fram á mjög gott sumar, og þess vegna er sérstaklega sorglegt að svona skyldi fara,“ segir Ingólfur. Spáð hafði verið metsumri í ferðamennsku hér á landi, enda gengið túristum sérstaklega hagstætt. Til framtíðar segir hann horfurnar þó ekki vera slæmar og gerir ráð fyrir að á næsta ári verði ástandið í ferðamannaþjónustunni og ráðstefnuhöldum aftur orðið nær því sem talist getur eðlilegt.

„Það hafa þegar borist fyrirspurnir og þess háttar fyrir næsta ár. Og gosið hefur heldur betur vakið athygli á landinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert