Handtökuskipun alltof harkaleg

Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson á aðalfundi Kaupþings
Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson á aðalfundi Kaupþings mbl.is/Sverrir

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur kært alþjóðlega handtökuskipun embættis sérstaks saksóknara á hendur sér, til Hæstaréttar. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Ólafur kveðst ekki hafa séð greinargerðina með kærunni og ekki geta tjáð sig um forsendur hennar.

Samkvæmt heimildum mbl.is þarf embætti hans að skila inn greinargerð til Hæstaréttar um það leyti sem þetta er ritað, klukkan þrjú í dag. Lögmaður Sigurðar, Gestur Jónsson, hefur þegar skilað sinni greinargerð til Hæstaréttar. Líklegt er talið að úrskurður Hæstaréttar muni liggja fyrir á morgun eða fimmtudag.

Handtökuskipunin frá sérstökum saksóknara var, sem kunnugt er, send til Alþjóðalögreglunnar Interpol, sem lýsti eftir Sigurði opinberlega þriðjudaginn 11. maí síðastliðinn.

Gestur segir í samtali við mbl.is að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um handtökuskipunina hafi verið kveðinn upp að Sigurði fjarstöddum og án vitneskju hans. Sigurður hafi fyrst heyrt af málinu í fjölmiðlum og ekki fengið endurrit af úrskurðinum fyrr en á fimmtudeginum 13. maí. Strax þá hafi úrskurðurinn verið kærður.

Sigurður hefur gefið það upp að hann sé heima hjá sér í Chelsea í London og sé ekki á flótta. Hann hefur boðist til að mæta í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara, fái hann tryggingu fyrir því að hann verði ekki handtekinn við komuna til landsins og að hann fái að snúa aftur til síns heima að yfirheyrslu lokinni.

Gestur vill ekki útlista forsendur kærunnar, en játar því að álykta megi út frá ofangreindu að Sigurður telji handtökuskipunina hafa verið óþarfa og miklu harkalegri viðbrögð en nauðsynlegt hafi verið miðað við aðstæður.

„Mönnum bregður auðvitað við það líka að kveðnir séu upp úrskurðir af þessu tagi án þess að þeir sjálfir hafi hugmynd um það, eða geti haft kost á því að gæta sinna hagsmuna," segir Gestur.

„Það eru heimildir til þess að slíkt sé gert. Auðvitað hefði héraðsdómur aldrei gert það án þess að til þess væri lagaheimild. Við teljum hins vegar að skilyrðin í lagaheimildinni séu ekki uppfyllt. Það þarf að vera einhver rík nauðsyn til þess, sem við teljum að hafi alls ekki verið," segir Gestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka