Lög um Bjargráðasjóð samþykkt

Sauðfé undir Eyjafjöllum.
Sauðfé undir Eyjafjöllum. Ragnar Axelsson

Alþingi samþykkti í dag frumvarp um breytingar á lögum um Bjargráðasjóð með 46 samhljóða atkvæðum. Með frumvarpinu er komið á móts við bændur sem orðið hafa fyrir búsifjum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Samkvæmt eldri lögum mátti árlegt fjárframlag ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs ekki vera meira en 80 milljónir á ári. Það liggur hins vegar fyrir að tjón sem orðið hefur vegna eldgossins er talsvert meira. Lögin fela í sér að heimilt verður að greiða meira úr ríkissjóði í sjóðinn en þessar 80 milljónir.

Lögin fela einnig í sér að heimilt er að greiða beingreiðslur til bænda þó að framleiðsla kúabænda á hamfarasvæðunum raskist eða liggi niðri um tíma. Talið er að með því megi draga úr líkum á því að bændur selji beingreiðslurétt frá lögbýlum sínum og bregði með því búi varanlega.

Einnig er í lögunum að finna ákvæði sem heimilar landbúnaðarráðherra að greiða beingreiðslur til sauðfjárbænda þó að þeir neyðist til að draga úr framleiðslu vegna gossins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert