Alþingi samþykkti í kvöld lög um breytta skipan dómara. Atkvæðagreiðslu um frumvarp sem heimilar gerð fjárfestingasamnings um gagnaver í Reykjanesbæ var hins vegar frestað en umræðu um frumvarpið er lokið.
Frumvarp dómsmálaráðherra um breytta skipan dómara felur í sér breytta skipun dómnefndar, auk þess sem hún fær aukið vægi. Lagabreytingin felur í sér að nefndinni verður falið að meta hæfi umsækjenda um embætti dómara bæði við Hæstarétt og héraðsdóm. Fellt er brott ákvæði um að umsagnar Hæstaréttar verði aflað við skipun í embætti hæstaréttardómara. Þá kveða lögin á um að dómsmálaráðherra verði bundinn af niðurstöðu dómnefndar, en þó geti hann vikið frá henni með því að Alþingi samþykki tillögu hans um að skipa í embætti annan hæfan umsækjanda en dómnefnd hefur talið standa fremst.
Lögin voru samþykkt með 29 atkvæðum gegn 2, en 13 sátu hjá.
Mestan tíma tók í gær að ræða frumvarp um fjármálafyrirtæki, en stjórnarandstaðan gagnrýndi ýmsa þætti frumvarpsins. Um miðnætti lauk umræðu um frumvarp um gagnaver í Reykjanesbæ. Atkvæðagreiðslu um frumvarpið var hins vegar frestað. Þingmenn Hreyfingarinnar lýstu mikilli andstöðu við frumvarpið.