Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) segir, að innköllun aflaheimilda hafi mikil áhrif á rekstur og efnahag íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Innköllun aflaheimilda á 20 árum muni leiði til gjaldþrots sjávarútvegsfyrirtækja sem nú ráða yfir 40%-50% af aflaheimildum en þau eigi sæmilega möguleika á að standa undir núverandi skuldum.
Þetta kemur fram í skýrslu, sem RHA hefur gert fyrir starfshóp, sem er að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar. Er skýrslan birt á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna.
RHA segist hins vegar telja, að efnahagsleg staða sjávarútvegsfyrirtækja, sem ráða yfir 38%-45% aflaheimilda, þoli að núverandi aflaheimildir séu innkallaðar á 20 árum. Það sem eftir standi af íslenskum sjávarútvegi, fyrirtæki sem ráða yfir 8%-12% af aflheimildum og tekjum greinarinnar, séu núna í óviðráðanlegri stöðu og verði það áfram.
Þá er þeirri skoðun lýst, að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þoli það almennt ef innköllun aflaheimilda sé útfærð þannig að innkallaður kvóti verði seldur á 20 krónur hvert þorskígildi til núverandi handhafa fiskveiðiheimildanna. Vegna eðlis innköllunarinnar sé þessi gjaldtaka lítil til að byrja með en aukist eftir því sem tíminn líði. Hins vegar þoli greinin illa ef þetta gjald sé 50 krónur á hvert þorskígildi af innkölluðum kvóta. Félög í erfiðri stöðu ráði yfirleitt ekki við svo hátt gjald og leiðir það til gjaldþrots þeirra.