Aðgerðarhópi um verndun Ingólfstorgs þykir ljóst að umhverfisslys sé í uppsiglingu við torgið nái þau áform, sem nú séu uppi á borði um hótelrekstur við Vallarstræti, fram að ganga.
Hótelinu muni ekki einungis fylgja mikil umferð og umsýslan sem þröngar götur í hjarta borgarinnar, heldur verður með tilkomu þess freklega gengið á vinsæl almannarými Reykjavíkurbúa, segir í tilkynningu frá hópnum.
Hann boðaði frambjóðendur allra flokka á sinn fund í morgun til að kynna hugmyndir að verndun Vallarstrætis, þar sem nú stendur til að reisa fimm hæða hótel. Hugmyndir aðgerðarhópsins byggja á þróunaráætlun Reykjavíkurborgar frá árinu 2000 sem unnin var af skipulagsyfirvöldum í Reykjavík og samþykkt af öllum flokkum.
Öll framboðin í Reykjavík sendu fulltrúa sinn á fundinn í morgun nema Besti flokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Reykjavíkurframboðið, segir í tilkynningu.
Frambjóðendur voru beðnir um að svara eftirfarandi spurningu: „Telur þú eðlilegt að leyfa byggingu fimm hæða hótels við Vallarstæti, ofan á Sjálfstæðishúsi, bak við hús sem standa við götuna og inni í skarði á milli þeirra?“