Landhelgisgæslan hefur spurst fyrir um það hjá norska varnarmálaráðuneytinu hvort það geti útvegað byssur fyrir varðskip. Fram kemur á norskum fréttavef að ráðuneytið hafi staðfest að byssurnar séu til og til sölu en yfirmaður hjá Landhelgisgæslunni segir að ekki standi til þar á bæ að kaupa vopn.
„Landhelgisgæslan er ekki að vígbúast," segir Sigurður Ásgrímsson, deildarstjóri hjá Landhelgisgæslunni við mbl.is.
Norski vefmiðillinn ABC Nyheter segir í dag að Landhelgisgæslan hafi spurst fyrir um sjálfvirkar byssur af gerðinni MP-5, skotfæri og annan búnað. Norska varnarmálaráðuneytið hafi staðfest í lok apríl að vopnin eru til og hægt sé að selja þau. Ef af verði yrði það í fyrsta skipti sem Norðmenn selji vopn til lands sem ekki er með eigin her.
Vefurinn hefur eftir Sigurði Ásgrímssyni að sér skiljist að aðeins eigi eftir að semja um verð og afhendingu. Sigurður sagði hins vegar við mbl.is, að þetta sé einhver misskilningur hjá norska vefnum og ekki standi til að kaupa byssur af Norðmönnum. Fyrirspurnin hafi verið í tengslum við undirbúning svonefnds Frontex verkefnis, sem Landhelgisgæslan tekur þátt í, en varðskipið Ægir sinnir nú landamæraeftirliti á ytri landamærum Evrópusambandsins við Afríku á vegum landamærastofnunar ESB. Þegar til kom hafi hins vegar ekki verið talin þörf á frekari vopnabúnaði um borð í skipinu.