Á næsta reglulega fundi stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða verður lögð fram tillaga um skipa sérstaka nefnd óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga, sem fái það hlutverk að kanna ýtarlega starfshætti og fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.
Þetta kom fram í ræðu Arnar Sigurmundssonar, formanns Landssamtaka lífeyrissjóða, sem hann flutti á aðalfundi samtakanna í dag.
„Í ljósi þess að meginhluti íslenska lífeyrisssjóðakerfisins hvílir á kjarasamningsbundnum réttindum mun stjórn LL kalla eftir sjónarmiðum heildarsamtaka launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði varðandi afmörkun og umfang úttektarinnar,“ sagði Arnar.
„Tryggja þarf umfram allt að vandað verði til verka eins og mögulegt er og að vinnubrögð og niðurstöður skýrslu sérfræðingahópsins verði hafin yfir allan vafa. Gangi ofangreint eftir er gert ráð fyrir að nefndin skili skýrslu og tillögum til stjórnar LL fyrir 1. nóvember 2010,“ sagði Arnar ennfremur.