Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag, að taka upp viðræður við forsvarsmenn kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy um að nýtingarréttur HS Orku á orkuauðlindum á Reykjanesi verði takmarkaður í 40-45 ár í heild í stað 65 ára eins og samningar HS Orku og Reykjanesbæjar kveða á um en þar er einnig vilyrði um að framlengja nýtingarréttinn í 65 ár til viðbótar.
Einnig vilja stjórnvöld tryggja að íslenska ríkið fái forkaupsrétt í að minnsta kosti 20 ár, vilji Magma selja HS Orku aftur. Í sérstakri samþykkt ríkisstjórnarinnar kemur fram, að hún muni leggja áherslu á endurskoðun stjórnarskrárinnar til að tryggja enn frekar eign þjóðarinnar á auðlindum landsins.
Jóhanna Sigurðardóttir, fosætisráðherra, lagði eftir langan ríkisstjórnarfund, áherslu á að ekki væri verið að selja auðlindir þjóðarinnar með kaupum Magma á HS Orku heldur leigja út nýtingarrétt. Hins vegar væri fáránlegt að hægt væri að leigja slíkan nýtingarrétt í allt að 130 ár.
Þá sagði Jóhanna, að æskilegt hefði verið að íslenskir aðilar hefðu komið að kaupum Magma á 52% hlut Geysis Green Energy í HS Orku og nefndi sérstaklega lífeyrissjóðina í því sambandi. Fram kom hins vegar í gær hjá forstjóra Magma, að lífeyrissjóðum hefði verið boðin aðild að kaupunum en þeir ekki haft áhuga.
Samþykkt ríkisstjórnarinnar er eftirfarandi:
Ríkisstjórn Íslands áréttar vilja sinn til að standa vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Einn af hornsteinum umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar er að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti.
Til að framfylgja þessum markmiðum ríkisstjórnarinnar hyggst hún hraða lagasetningu m.a. í samræmi við nýútkomna skýrslu á vegum sérfræðinefndar um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Megin niðurstaða nefndarinnar er að nýtingarrétti á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar verði ekki ráðstafað nema með tímabundnum hætti og almennt eigi að miða við styttri leyfistíma en hámarkstíma samkvæmt núgildandi lögum. Það er einnig niðurstaða nefndarinnar, að undantekningarlaust eigi að taka gjald fyrir rétt til nýtingar þessara auðlinda. Þannig verði tryggt að renta af auðlindinni renni til eigenda hennar, þjóðarinnar sjálfrar.
Ríkisstjórnin mun einnig leggja áherslu á endurskoðun stjórnarskrárinnar til að tryggja enn frekar eign þjóðarinnar á auðlindum landsins. Slíkt ákvæði í stjórnarskrá er besta trygging þess, að auðlindir Íslands verði í eigu þjóðarinnar um ókomna tíð.
Loks vill ríkisstjórnin árétta, að ekki verður hróflað við eignarhaldi á orkufyrirtækjum sem eru á hendi ríkisins í tíð þessarar ríkisstjórnar.