Veðurstofan gerir áfram ráð fyrir öskufalli norður og norðvestur af eldstöðinni í Eyjafjallajökli í dag. Aska féll á Jökuldal, Seyðisfirði og Neskaupstað í gær svo nokkrir staðir séu nefndir. Flugvöllurinn á Ísafirði er lokaður eins og stendur vegna öskuskýs sem þangað hefur teygt sig.
Flugfélag Íslands áætlar að fljúga til Akureyrar og Egilsstaða frá Reykjavík á níunda tímanum en ekki verður flogið til Ísafjarðar og Vestmannaeyja fyrr en í fyrsta lagi síðdegis.
Millilandaflug hefur verið með eðlilegum hætti frá Keflavíkurflugvelli í morgun.
Mikið svifryk mældist á höfuðborgarsvæðinu um miðjan dag í gær og var mengunin rakin til öskufoks frá svæðum í grennd við gosstöðvarnar. Þéttleikinn var langt undir hættumörkum, þ.e. 50 míkrógrömmum á rúmmetra miðað við sólarhringsmælingu. Síðar rigndi og dró þá mjög úr menguninni sem fór mest upp í um 320 míkrógrömm miðað við hálftímamælingu um fjögurleytið á mælistöð við Grensásveg. Um áttaleytið var mengunin komin niður í aðeins sex milligrömm.