Fangelsi fyrir ítrekað fíkniefnabrot

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á sjötugsaldri í 8 mánaða fangelsi fyrir að vera með fíkniefni í fórum sínum. Maðurinn hefur áður hlotið dóma fyrir fíkniefnabrot. 

Húsleit var gerð á heimili mannsins í Hafnarfirði í október árið 2008 og þá fundust rúm 150 grömm af amfetamínu, 32 grömm af kókaíni og 23 e-töflur. Í apríl á síðasta ári var aftur gerð húsleit á heimili mannsins og fundust þá 23 grömm af amfetamíni, 2 e-töflur og lítilræði af kannabis.  Maðurinn sagðist í bæði skiptin ekki vita hvernig stæði á því að fíkniefnin voru á heimili hans.

Maðurinn er hjartasjúklingur og hefur fengið heilablóðfall. Hann býr ásamt 14 ára gömlum syni sínum. Í dómi héraðsdóms kemur fram, að þegar húsleitin var gerð haustið 2008 var hafður sjúkrabíll til taks vegna heilsufarssögu mannsins og meðan á leitinni stóð byrjaði maðurinn að nötra og skjálfa. Hann var síðan fluttur á sjúkrahús til skoðunar.

Þá kemur fram í dómnum, að þegar lögrelga kvaddi dyra hjá manninum í apríl 2009 hafi hann orðið mjög flóttalegur og hlaupið inn í eldhús. Við leit á honum fannst síðan skammbyssa og skotfæri í buxnavasa hans. Maðurinn sagðist hafa verið að gera við byssuna þegar lögreglu bar að garði og hann hefði ósjálfrátt stungið henni inn á sig.

Dómurinn fann manninn sekan um fíkniefnabrot og sagði ekki hægt  skilorðsbinda refsinguna af heilsufarsástæðum enda njóti fangar  viðeigandi heilbrigðisþjónustu meðan á afplánun stendur og heimilt sé að vista þá á sjúkrahúsi um stundarsakir eða allan refsitímann.

Umræddur maður hefur oft komið við sögu í ýmsum fíkniefnamálum. Hann höfðaði árið 2006 meiðyrðamál á hendur fyrrverandi ritstjóra og blaðanni Blaðsins fyrir að segja í grein að hann væri umsvifamikill fíkniefnasali. Hæstréttur sýknaði blaðamennina á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert