Fyrirtækjum með báðum kynjum í stjórn hefur fækkað um 16 á síðasta ári þrátt fyrir að fyrirtækjum hafi fjölgað um ríflega tvö þúsund á sama tíma. Þetta þýðir að hlutfall fyrirtækja með bæði kyn í stjórn lækkar úr 15% niður í 14%.
Tölur sem sýna þetta voru birtar nú síðdegis á aðalfundi Félags kvenna í atvinnurekstri. Alls voru 30.337 fyrirtæki athuguð fyrir ári en 32.515 fyrirtæki nú. Fyrirtæki þar sem eingöngu voru karlar í stjórn voru 21.490 í fyrra en 23.291 nú og fjölgaði því um 1801. Fyrirtæki þar sem konur eru einar í stjórn voru 4275 í fyrra en 4668 nú og fjölgaði um 393.
Skrifað var í maí í fyrra undir samstarfssamning Samtaka atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráðs um leiðir að því marki að fjölga konum í forustusveit íslensks viðskiptalífs þannig að hlutfalls hvors kyns þar verði ekki undir 40% árið 2013. Jafnframt var samið um að CreditInfo myndi árlega mæla árangur verkefnisins og afhenti fyrirtækið fyrstu mælinguna í dag.
Á ráðstefnunni Virkjum konur og karla í febrúar sl. var einnig ákveðið að skoða fjölda fyrirtækja miðað við fyrirliggjandi kynjakvóta stjórna árið 2013, þ.e. 40%. Sýndi mæling þá að fyrirtæki með 40:60 kynjahlutfallið, eða 1/3 hlutfall í þriggja manna stjórnum, voru þá samtals 4321. Þessum fyrirtækjum hefur nú fjölgað um 22 og eru því samtals 4343 talsins.