Gera kröfu um skatt af sjúkdómatryggingu

Fram að þessu hafa bætur sem greiddar eru til þeirra …
Fram að þessu hafa bætur sem greiddar eru til þeirra sem eru með sjúkdómatryggingu verið skattfrjálsar. Árni Sæberg

Ný túlkun á tekjuskattslögum veldur því að hugsanlegt er að þeir sem hafa fengið greiddar bætur vegna sjúkdómatryggingar á síðustu árum þurfi að greiða skatt af bótunum.

Frá árinu 1996 hafa Íslendingar átt kost á að kaupa sér sérstakar sjúkdómatryggingu hjá íslenskum tryggingafélögum. Nú hafa verið gefin út um 44 þúsund gild sjúkdómatryggingaskírteini, en þau tryggja fleiri en einn einstakling. Til viðbótar hafa einhverjir skipt við erlend tryggingafélög.
Fram að þessu hefur ekki verið greiddur skattur af bótum sem tryggingafélög greiða vegna alvarlegra sjúkdóma. Skattayfirvöld gerðu hins vegar nýverið einstaklingi að greiða skatt af bótum sem hann fékk og tapaði hann málinu í héraðsdómi. Málið er núna hjá Hæstarétti.

Í bréfi sem Gigtarfélag Íslands, Hjartaheill og Krabbameinsfélagið sendu til efnahags- og skattanefndar Alþingis segir að þau trúi því staðfastlega að hið opinbera ætli sér ekki að sækja fjármagn til þeirra sem lenda í alvarlegum heilsufarsvanda. Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, sagði að fyrrverandi forstjóri Krabbameinsfélagsins hefði rætt þetta við efnahags- og skattanefnd, en engin viðbrögð hefðu komið frá nefndinni ennþá. Hún sagði mikilvægt að Alþingi taki af skarið um það að ekki verði greiddur skattur af þessum bótum í framtíðinni.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, segir að þau sjónarmið sem lýst er í bréfi samtakanna njóti skilnings innan nefndarinnar. Þau sjónarmið hafi líka komið fram að ekki megin búa svo um hnútana að verið sé að hvetja til tvöfalds kerfis. Nefndin sé að skoða málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert