Magma Energy fær samtals 14,7 milljarða króna að láni frá opinberum aðilum vegna kaupa á 98,53% hlutafjár í HS Orku. Þegar Geysir Green Energy (GGE) keypti stóran hlut í HS Orku af Reykjanesbæ fékk félagið seljendalán frá bæjarfélaginu. Nú þarf bæjarstjórn Reykjanesbæjar að taka afstöðu til þess hvort lánið verði framlengt til Magma Energy, en það hefur ekki verið gert formlega.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að tæp 40% kaupverðs Magma Energy á hlut Geysis Green Energy fælust í yfirtöku á skuldabréfi sem gefið var út til Reykjanesbæjar. Sveitarfélagið sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið þar sem meðal annars sagði að tilboðið yrði skoðað af bæjarstjórn, þar sem Magma Energy væri sterkari bakhjarl en GGE. Magma verður því að öllum líkindum endanlegur greiðandi skuldabréfsins, en ekki GGE, að því gefnu að Reykjanesbær geri ekki kröfu um að Magma greiði skuldabréfið upp við kaupin á hlutnum.