Máli Sigurðar vísað frá

Sigurður Einarsson er eftirlýstur á vef Interpol, alþjóðalögreglunnar.
Sigurður Einarsson er eftirlýstur á vef Interpol, alþjóðalögreglunnar.

Hæstiréttur vísaði í dag frá máli Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, en hann fór fram á ógildingu alþjóðlegrar handtökuskipunar. Samkvæmt upplýsingum frá embætti sérstaks saksóknara vísaði Hæstiréttur til þess að kæruheimild væri ekki fyrir hendi.

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann teldi skilyrðum ekki uppfyllt til handtökuskipunarinnar, enda þurfi að vera einhver rík nauðsyn til þess, sem hann telur ekki hafa verið.

Handtökuskipunin frá sérstökum saksóknara var, sem kunnugt er, send til Alþjóðalögreglunnar Interpol, sem lýsti eftir Sigurði opinberlega þriðjudaginn 11. maí síðastliðinn.

Farbönn staðfest og framlengd

Í gær staðfesti Hæstiréttur farbannsúrskurð yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg. Hann verður líkt og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, í farbanni til 28. maí nk.

Að endingu framlengdi Héraðsdómur Reykjavíkur farbann yfir Steingrími Kárasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar Kaupþings. Hann verður jafn lengi og aðrir í farbanni.

Hæstiréttur á enn eftir að taka til meðferðar mál Hreiðars Más og Ingólfs en þeir kærðu farbannsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Búist er við að þær kærur verði teknar fyrir á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert