Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu í boði Norður-Suður stofnunarinnar sem starfar á vegum Evrópuráðsins. Í ræðu sinni fjallaði forsetinn um þær miklu breytingar sem orðið hafa í samskiptum Evrópuríkja og þróunarlanda og hvernig breytt valdahlutföll í veröldinni sköpuðu nýjan grundvöll fyrir stefnumótun og alþjóðlega samvinnu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu.
Norður-Suður stofnunin var sett á laggirnar fyrir tuttugu árum á grundvelli samþykkta þings Evrópuráðsins, en Ólafur Ragnar Grímsson skipulagði fyrir hönd Evrópuráðsins viðamikla evrópskra þingmannaráðstefnu sem haldin var í Lissabon árið 1984 þar sem sú stefna var mótuð.
Ólafur Ragnar rakti hvernig hættan á óafturkræfum loftslagsbreytingum væri nú sameiginlegur vandi allra ríkja. Breytingar á orkukerfum gegndu lykilhlutverki í þeirri baráttu og þróunarlönd hefðu fjölda tækifæra sem tækniþróun undanfarinna ára hefði fært þeim. Jafnframt nefndi forsetinn að skortur á drykkjarvatni, erfiðleikar við öflun fæðu, fjölgun flóttamanna vegna náttúruhamfara og skertra landsgæða sem og hætturnar sem fylgdu hækkun sjávarborðs sýndu að örlög allra þjóða væru nú samofin, samkvæmt fréttatilkynningu.
Forseti Íslands átti jafnframt fund í Lissabon með Jorge Sampaio fyrrverandi forseta Portúgals og forstöðumanni bandalags ólíkra menningarheima sem starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna (UN High Representative for the Alliance of Civilisations) en markmið þess er að auka skilning og virðingu milli ólíkra trúarbragða og menningarheima.
Þá átti forseti einnig fund með Maud de Boer-Buquicchio aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins þar sem m.a. var rætt um mikilvægt framlag Íslands til Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins og þátttöku íslenskra þingmanna í stefnumótun þings Evrópuráðsins.
Forseti ræddi einnig við fréttamenn og fulltrúa portúgalskra fjölmiðla, blaða, tímarita og útvarpsstöðva, segir ennfremur í tilkynningu.