Óttast hærra orkuverð til almennings

Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokks VG.
Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokks VG. Ómar Óskarsson

Árni Þór Sigurðsson, varaformaður þingflokks VG, segir ástæðu til að hafa áhyggjur af því að kaup Magma á HS-orku leiði til hærra orkuverðs til almennings.

Þingflokkur VG ræddi í dag um kaup Magma á HS-orku og um auðlindanýtingu almennt. „Ég reikna með að við munum halda áfram umræðum um þessi mál á næstunni og hvort að það er með einhverjum hætti hægt að hafa áhrif á þróunina eins og hún blasir við í dag,“ sagði Árni.

Mikil óánægja er í þingflokknum með að sala fyrirtækisins skuli hafa gengið í gegn. Árni Þór sagði að flokkurinn ætlaði að skoða betur hvað leiðir séu færar í stöðunni. Hann útilokar ekki að reynt verði að hafa áhrif á málið með lagasetningu.

Forystumenn VG hafa verið gagnrýndir fyrir að bregðast seint við því lengi hefur lengið fyrir að Magma hefði áhuga á að komast yfir HS-orku. „Það lá fyrir strax í haust að ríkisstjórnin hefði áhuga á að koma inn í þetta mál. Þegar þetta kemur upp aftur núna þá gerðu aðilar málsins sér alveg grein fyrir því að ríkisstjórnin var ennþá áhugasöm um það. Þess vegna var beðið um að málið yrði ekki klárað til að ríkisstjórnin hefði ráðrúm til þess að ræða hvort að hún gæti með einhverjum hætti komið að málinu, en sá frestur var ekki gefinn.“

Ross Beaty, forstjóri Magma, sagði við fjölmiðla í vikunni að verð á raforku til stóriðju væri of lágt og fyrirtækið vildi reyna að hækka það. Árni Þór var spurður hvort hann væri ekki ánægður með þessa yfirlýsingu.

„Við skulum sjá til hvernig það fer. Manni sýnist nú að orkuverð sé almennt á uppleið. Við höfum áhyggjur af því að þetta geti leitt til hærra orkuverðs fyrir almenning eins og einkavæðing í orkugeiranum hefur gert víðast hvar. Það eru mýmörg dæmi um þetta vestan hafs og austan að þessi þróun hafi einmitt leitt til hærri orkuverðs til almennings.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka