Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda, harma að aðgangur Íslendinga að þunglyndislyfjum sé nú í uppnámi vegna breyttrar greiðsluþátttöku þar sem breytingarnar hafa í för með sér mikla og óæskilega uppstokkun á lyfjameðferð margra sjúklinga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum en í gær var tilkynnt um breytingar á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands á þunglyndislyfjum.
Samtökin benda á að lakari verkun eða aukaverkanir geti hæglega bakað samfélaginu umtalsverðan kostnað og yfirskyggt skammtíma sparnaðaraðgerðir margfalt.
„Markmiðið með breytingum stjórnvalda er að draga úr notkun dýrari þunglyndislyfja og ná fram 200-300 milljóna kr. sparnaði á ársgrundvelli. Beinn kostnaður vegna þunglyndislyfja er hins vegar einungis 1% af heildarkostnaði samfélagsins vegna sjúkdómsins. Minna framboð þunglyndislyfja, vegna breyttrar greiðsluþáttöku, getur kostað samfélagið mun meira en sem nemur fyrirhuguðum sparnaði, meðal annars vegna innlagna á sjúkrastofnanir, breytinga á lyfjagjöf og breyttrar virkni lyfjagjafar, komu á göngudeildir og neyðarmóttöku. Samkvæmt gögnum frá heilbrigðisráðuneytinu má áætla að u.þ.b. 14 þúsund einstaklingar, rúm 40% sjúklinga á þunglyndislyfjameðferð, verði lyfjalausir við gildistöku reglugerðarinnar.
Ekkert mat er lagt á hvaða kostnað þessar breytingar kunni að hafa í för með sér, t.d. vegna aukinna heimsókna til lækna og skýrsluvinnu vegna umsókna og undanþágulyfja sem er augljós beinn kostnaður. Ótalinn er þá óbeinn kostnaður vegna veikindadaga, örorku, vinnutaps, ótímabærra starfsloka og jafnvel andláta.
Það er skylda okkar allra sem byggjum þetta samfélag að leita allra leiða til að finna sársaukaminnstu leiðirnar til sparnaðar svo hægt sé að vinna þjóðina úr þeirri efnahagskreppu sem hún er nú í.
Það er skylda Frumtaka og annarra sem starfa að heilbrigðismálum að tryggja hagsmuni sjúklinga og nýta það fé sem til ráðstöfunar er í heilbrigðisgeiranum sem best í þágu skattborgara. Það eru því sameiginlegir hagsmunir frumlyfjaframleiðenda og heilbrigðisyfirvalda að tryggja aðgengi að nýjum lyfjum svo hægt verði að varðveita heilbrigðiskerfið til langs tíma.
Með þeim breytingum sem nú er verið að gera verður ekki séð að tillit sé tekið til þjóð- eða heilsuhagfræðilegra sjónarmiða né heldur hvaða meðferð hafi mesta gagnsemi samanborið við kostnað," segir í fréttatilkynningu Frumtaka.