Skiptar skoðanir um ein hjúskaparlög

mbl.is/Kristinn

Allsherjarnefnd Alþingis hafa borist yfir 30 umsagnir frá stofnunum, trúfélögum, samtökum og einstaklingum varðandi frumvarp dómsmálaráðherra um ein hjúskaparlög. Ljóst er að skoðanir eru skiptar.

Margir fagna frumvarpinu, t.d. Alþýðusamband Íslands, (FAS) Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra, Fríkirkjan í Reykjavík, Q - Félag hinsegin stúdenta, Umboðsmaður barna og Mannréttindaskrifstofa Íslands.

Íslenska Kristskirkjan er þeirrar skoðunar að það sé rétt og skylt að áfram verði í gildi hjúskaparlög sem nota orðin karl og kona og orðið hjón (um karl og konu) eins og verið hefur um langa hríð.

Þá segir í umsögn Kristskirkjunnar að lagafrumvarpið fari gróflega gegn kristnum viðhorfum. Íslensku Kristskirkjunni þyki það bæði óviturlegt og ranglátt „bæði gagnvart okkur og þúsundum annarra Íslendinga sem hafa svipuð viðhorf og við. Hér er um augljósa mismunun að ræða sem við mótmælum.“

Í umsögn Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi kemur m.a. fram að hún geti ekki samþykkt fyrirhugaðar breytingar. „Í raun hefur ekkert mannlegt yfirvald leyfi til þess að breyta þeim náttúrulegu lögmálum sem koma beint frá Skaparanum. Fyrir sitt leyti mun Kaþólska kirkjan á Íslandi halda sig við Guðs lög eins og henni ber, boða heilbrigði og eðlileg viðhorf um mannleg gildi og fara þar með eftir fordæmi Krists eins og hún hefur alltaf gert.“

Að áliti Safnaðarhirða hvítasunnukirkjunnar er ekki þörf á nýrri hjúskaparlöggjöf. „Sú sem fyrir er fellur vel að skilningi kristinna manna á því að hjúskapurinn og hjónabandið er stofnun milli karls og konu,“ segir í umsögninni.

Prestafélag Íslands telur meginatriði frumvarpsins, að ein lög gildi um hjúskaparstofnun allra þeirra sem vilja ganga í hjónaband, mikilvæga réttarbót.

„Hins vegar gerir stjórn PÍ alvarlega athugasemd við nafnleynd sæðisgjafa sem tilgreind eru í frumvarpinu og telur slíkt ákvæði brjóta á réttindum barna til þess að þekkja uppruna sinn. Þessi fyrirvari á þó fyrst og fremst við lög um tæknifrjóvgun (1996 nr. 55) en 4. grein þeirra laga varð tilefni mikilla umræðna á nýliðinni prestastefnu um réttmæti þess skv. lögum að kynfrumgjafi sé nafnlaus,“ segir m.a. í umsögn félagsins.

Allar umsagnirnar er að finna á vef Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert