„Það er verið að spá frekar flötu bensínverði í sumar,“ segir Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri hjá N1, og bætir við að þetta séu jákvæðar fréttir. „Þetta kom mér á óvart.“ Menn standi því ekki frammi fyrir miklum bensínhækkunum.
Þetta þýði að olíuverð á heimsmarkaði verði frekar jafnt og því minna um sveiflur. Magnús segir í samtali við mbl.is að þetta séu gleðifréttir, svo langt sem þær nái. Ljóst sé að kreppan og erfiðleikar á erlendum fjármálamörkuðum setji strik í reikninginn.
Hann segir að það sé undir krónunni komið, þ.e. gengi hennar gagnvart Bandaríkjadal, hvort bensínverð muni fara lækkandi á næstunni. „Fjármálamarkaðurinn er svo óræður. Einn daginn styrktist hún um fjórar krónur og næsta dag veiktist hún um fimm krónur,“ segir Magnús.
„Krónan er þó það veik ennþá að lækkun á heimsmarkaðsverði hefur ekki gefið frekari tækifæri,“ segir hann. Þegar fjármálamarkaðir hrynja erlendis þá hækki olíuverð og öfugt.
Staðan endurspeglist mikið af stöðu fjármálamarkaða heimsins um þessar mundir.
Bensín hefur hækkað mikið undanfarna mánuði og er það nú í hæstu hæðum. Margir hafa talað um að leggja bílnum aka minna. Aðspurður segir Magnús: „En við finnum fyrir því, að það er minnkun. Það er ekki hægt að leyna því.“