Í Surtsey, Eldfelli og Heklu hafa á undanförnum árum fundist margar tegundir útfellinga og hafa greinst 27 tegundir svonefnda steinda, sem ekki voru áður þekktar í náttúrunni.
Tvær tegundanna hafa þegar verið samþykktar sem nýjar steindir fyrir vísindin af Alþjóða Steindafræðisambandinu, eldfellít, sem fannst í Eldfelli á Heimaey, og heklaít, sem fannst í aðalgosprungunni sem var virk í Heklugosinu 1991.
Þetta kemur fram á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í eldgosum, eða í kjölfar þeirra, myndast ýmiss konar útfellingar. Þessar eldfjallaútfellingar mynda skánir á yfirborði hrauna, í hraunhellum eða við gígop. Flestar útfellinganna myndast beint úr hraunkvikugasi sem streymir út um op í kólnandi berginu.
Samsetning eldfjallaútfellinganna úr Fimmvörðuhálsgosinu var rannsökuð með röntgenbrotgreiningu í Kaupmannahafnarháskóla. Eru útfellingasteindirnar ralstónít, „HD“ og thenardít meðal þeirra tegunda sem myndast hafa á hrauni sem rann á Fimmvörðuhálsi.