Ákveðið var á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis í dag að taka hvalafrumvarp út af málaskrá vorþings. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði endurflutt í haust.
Fram kemur á vef Skessuhorns, að ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun hafi verið tvær: að hvalafrumvarpið sé ekki forgangsmál ríkisstjórnarinnar og óheppilegt sé að skipta um veiðileyfi á miðri vertíð eins og stefndi í ef frumvarpið hefði verið samþykkt nú á vorþinginu.
Skessuhorn segir, að Kristjáni Loftssyni,
framkvæmdastjóra Hvals hf., hafi hafa verið tilkynnt um þessa ákvörðun
sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Hann hafði látið að því liggja
að ef umrætt frumvarp yrði samþykkt á vorþinginu myndi hann ekki senda
skipin til hvalveiða í vor, en 20-25 manns hafa unnið að undirbúningi
vertíðar í Hvalstöðinni í Hvalfirði í vetur.