Íhuga verkföll í haust

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Golli

Hljóðið í verkalýðsfélögunum um landið er mjög þungt og er meðal annars rætt um þann möguleika að nýta verkfallsréttinn í haust grípi stjórnvöld ekki til aðgerða til að örva atvinnulífið, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ. Gylfi telur stjórnmálastéttina hafa brugðist launafólki.

Gylfi er harðorður í garð stjórnvalda og stjórnarandstöðunnar en hann er þeirrar skoðunar að stjórnmálastéttin hafi brugðist launafólki með aðgerðaleysi annars vegar og málþófi hins vegar í stað þess að láta hendur standa fram úr ermum.

Hann kveðst skynja mikla óþolinmæði hjá félagsmönnum sínum.

„Ég er með formannafund á laugardaginn. Mitt fólk er orðið mjög langeygt gagnvart þessu umhverfi. Það verður að segjast alveg eins og er. Ég skil það bara mjög vel.“

- Hvernig er hljóðið í verkalýðsfélögunum?

„Það er mjög þungt. Menn hafa auðvitað gríðarlegar áhyggjur af stöðu atvinnumála, bæði atvinnuleysinu og tekjubresti almennt. Fólk er hrópandi á einhverjar lausnir og þegar þær ekki verða til gefur auga leið að það eru lausir kjarasamningar í haust.

Alþingi hlustar væntanlega betur á okkur þegar við erum með lausa samninga. Það gefur þá auga leið að verkalýðshreyfingin mun þá nota sér þá stöðu til þess að tryggja að á hana sé hlustað,“ segir Gylfi sem harmar að ríkisstjórnin skuli ekki hafa hrint af stað mannaflsfrekum framkvæmdum, líkt og hún hafi boðað.

Aðspurður hvort það sé ábyrgt af honum sem forseta ASÍ að minna á verkfallsréttinn í þessu árferði svarar Gylfi því til að honum beri skylda til að miðla reiði félagsmanna til stjórnmála- og fjölmiðlamanna. Þolinmæðin sé á þrotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert