Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, mætir á fund efnahags- og skattanefndar Alþingis í fyrramálið til að ræða þar um starfskjör Seðlabankastjóra. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins, óskaði eftir því að Lára kæmi á fund nefndarinnar.
„Það er mikilvægt fyrir Seðlabankann og stjórnvöld að menn vindi ofan af þessu máli,“ sagði Birkir Jón. „Það hafa komið fram misvísandi skilaboð um hverju seðlabankastjóra var lofað hvað laun varðar og hver lofaði honum því.“
Birkir Jón sagði hin ólíku skilaboð hafi komið frá fólki í bankaráði Seðlabankans annars vegar og forystumönnum ríkisstjórnarinnar hins vegar. Það sé hlutverk Alþingis að veita framkvæmdavaldinu aðhald og þetta sé hluti af því. Seðlabankinn sé grundvallarstofnun í samfélaginu og allt sem að honum lúti þurfi að vera á hreinu.
„Það verður að koma í ljós hvað kemur fram á þessum fundi,“ sagði Birkir Jón þegar hann var spurður hvort hann gerði sér vonir um að málið upplýstist á fundinum.
Birkir Jón kvaðst hafa einnig hafa óskað eftir því að Ragnar Árnason bankaráðsmaður kæmi á fund nefndarinnar því hann hafi tjáð sig um málið á síðum Morgunblaðsins. Því miður komist hann ekki á fundinn í fyrramálið en verði væntanlega kallaður á annan fund efnahags- og skattanefndar.