Skemmtiferðaskip til Djúpavogs í gær

National Geographic Explorer á Djúpavogi í gær.
National Geographic Explorer á Djúpavogi í gær. mbl.is/Andrés

Skemmtiferðaskipið National Geographic Explorer kom til Djúpavogs í gær með 150 farþega. Skipið lagðist að bryggju í Gleðivík og fóru farþegarnir þar í land.

Skipið mun því vera fyrsta skemmtiferðaskipið, sem kemur til landsins í sumar en ekki skipið Athena, sem kom til Seyðisfjarðar í morgun.

N.G. Explorer lagðist að Bökugarði í Húsavík í morgun, en það er óvenju snemma á ferðinni í ár að sögn fréttaritara. Það verður aftur á Húsavík rétt fyrir næstu mánaðarmót.

Alls eru fimm komur skemmtiferðaskipa boðaðar til Húsavíkur í sumar en á undanförnum árum hefur sveitarfélagið Norðurþing haft frumkvæði að kynningu á Húsavík sem góðum áfangastað fyrir skemmtiferðaskip, enda hægt að bjóða upp á margvíslega áhugaverða afþreyingu og upplifun fyrir gesti.
 

Von er á bæði Athena og National Geographic Explorer til Reykjavíkur.  Athena, sem er 16.144 lestir að stærð og skráð í Portúgal kemur á sunnudagsmorgun en National Geographic Explorer, sem er 6167 lestir, skráð á Bahamas, kemur á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert