Forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðar stóð nýlega fyrir könnun meðal sölustaða tóbaks í Hafnarfirði. Fóru tveir unglingar úr 10. bekk á 22 sölustaði undir eftirliti starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar og reyndu að kaupa sígarettur. 6 sölustaðir seldu unglingunum tóbak.
Fram kemur á heimasíðu Hafnarfjarðar, að ekki var farið inn á staði með vínveitingaleyfi þar sem tóbak er selt. Búast má við því að þeir staðir sem seldu börnum tóbak fái áminningu eins og kveður á um í lögum um tóbaksvarnir.
Meirihluti sölustaða í Hafnarfirði hefur gert sérstakt samkomulag við forvarnarnefnd sem miðar að því að leita allra leiða til að koma í veg fyrir sölu tóbaks til barna. Í mars í fyrra seldu 32% sölustaða unglingunum tóbak.