Varnargarðar styrktir við Svaðbælisá

Aurflóð kom í Svaðbælisá í gær og hefur verið unnið …
Aurflóð kom í Svaðbælisá í gær og hefur verið unnið að því að styrkja varnargarða í dag. mynd/Ólafur Eggertsson

Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna nú að því að styrkja varnargarða við Svaðbælisá. Lögreglumaður frá Hvolsvelli vaktar ána, en hann segir í samtali við mbl.is að engin hætta sé á ferðum.

Hann segir að það séu ekki vatnavextir í ánni. Hins vegar sé flutningsgeta árinnar orðin léleg. Í gær hafi mikill aur safnast í hana í aurflóði. „Það liggur nokkuð hátt hérna undir brú og nálægt varnargörðum,“ segir hann.

Að sögn lögreglu er húsið á Lambafelli nálægt ánni. „Það má nú segja að það flæði nánast heim undir hlað, þannig að það má ekkert í því hækka,“ segir lögregla. Húsið sé hins vegar mannlaust og því enginn í bráðri hættu.

Lögregla segir að ef hlaup komi í ána þá þurfi mögulega að loka þjóðveginum tímabundið, því varnargarðarnir séu fremur lágir miðað við hvernig árfarvegurinn er þessa stundina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert