Verulega dregið úr kvikuflæði

Gosmökkur yfir Eyjafjallajökli.
Gosmökkur yfir Eyjafjallajökli. Reuters

Gosmökkurinn í Eyjafjallajökli hefur lækkað undanfarna daga sem bendir til þess að dregið hafi verulega úr kvikuflæði (vel undir 50 tonn/sek) miðað við í lok síðustu viku og um helgina. Enn má búast við sveiflum í gosvirkninni með
breytilegu gjóskufalli að sögn Veðurstofu Íslands.

Gosmökkurinn er í um 5 km hæð samkvæmt veðurratsjá. Sunnanátt er í fjallahæð yfir eldstöðinni, 10 metrar á sekúndu en efst í gosmekkinum er suðsuðvestanátt, 13 metrar á sekúndu.

Ein tilkynning hefur borist af öskufalli og er hún frá Fljótsdal sem er innsti bær í Fljótshlíð. Þar hófst öskufallið í nótt og stendur enn.


Tíu eldingar hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá miðnætti og til klukkan 13 en eftir það hefur engin elding mælst.

Enn er lítið bræðsluvatn frá eldgosinu og í dag hefur sjatnað í ám við Eyjafjallajökul eftir rigninguna í gær. Á morgun er áætlað að setja mælitæki í Bakkakotsá til að reyna að sjá forboða hugsanlegra aurflóða eins og urðu í Svaðbælisá í gær.

Ekkert hefur sést til gosstöðvanna í tvo daga sökum veðurs.

Ratsjármyndir úr TF-SIF sýna að engar stórvægilegar breytingar hafa átt sér stað í ískötlunum þar sem sprengigígurinn hleðst upp. Gosið er í meginatriðum sprengigos og lítið sem ekkert hraunrennsli niður Gígjökul.

Óróinn er nokkuð stöðugur og líkur því sem verið hefur síðustu daga.

Tveir smáskjálftar hafa mælst í jöklinum frá miðnætti, á um 7 og 3 km dýpi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert