Vill ekki hugsa til haustsins

Vilhjálmur segir SA lengi hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að ráðast …
Vilhjálmur segir SA lengi hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að ráðast ekki í mannaflsfrekar framkvæmdir. RAX

„Ég finn að það er mikið óþol í fólki,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, aðspurður um þau ummæli Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, að verkalýðsfélögin íhugi verkföll í haust. Vilhjálmur kveðst ekki „bjóða í að hugsa til haustsins“ rætist ekki úr ástandinu.

„Að sjálfsögðu óttumst við það að verkalýðshreyfingin verði í þannig ham þegar líður að haustinu og það er í rauninni sameiginlegt vandamál. Ef staðan verður sú að verkalýðshreyfingin fer að efna til verkfalla gegn okkur þá lítum við ekki á það sem árás á okkur heldur er það þá sameiginlegt vandamál gagnvart stjórnvöldum, hver sem þau eru, sem við þurfum þá að glíma við. Því samskipti okkar við verkalýðshreyfinguna eru mjög góð.“

Vilhjálmur tekur aðspurður undir með Gylfa að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við fyrirheit um mannaflsfrekar framkvæmdir.

„Við höfum tekið undir þá gagnrýni alla saman. Þegar við skrifuðum undir stöðugleikasáttmálann fyrir tæpu ári átti fyrir 1. september að vera búið að taka ákvarðanir um opinberar framkvæmdir og leita liðssinnis lífeyrissjóðanna til að fjármagna þær. Fyrir 1. nóvember átti að vera búið að ryðja úr vegi öllum hindrunum vegna Helguvíkur og Straumsvíkur og tilheyrandi virkjanna. Þetta er hvorugt farið af stað.“

Langt þangað til samningar losna

Hann tekur þó fram að margt geti breyst á næstu vikum og mánuðum. 

„Það er margt sem á eftir að gerast frá því núna og þangað til samningunum lýkur. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að skapa rétta jarðveginn þannig að við séum að komast út úr kreppunni og getum horft til framtíðar. Ef það gerist ekki þá býð ég ekki í haustið. Þá býð ég ekki í það. Þá óttast ég það mjög,“ segir Vilhjálmur sem minnir á að kjarasamningar losni 30. nóvember.

„Það verða engin verkföll eða verkbönn fyrr en samningar losna.“

Getum búist við verkföllum 

Vilhjálmur kveðst skilja óánægju verkalýðshreyfingarinnar. 

„Við getum alveg búist við því að það verði verkföll vegna þess að menn sjá ekki neinar leiðir til þess að komast út úr þeim vandræðum sem við erum í. Við erum á botninum en gætum verið að fara út úr kreppunni á þessu ári. Það er fullt af málum sem við eigum eftir að vinna í.

Við eigum eftir að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og það á fyrst og fremst eftir að lækka útgjöldin til þess að ná árangri. Það er búið að hækka skattana og þá er röðin komin að útgjöldunum. Og það er auðvitað heilmikið verkefni.

Á sama tíma þarf að hugsa til þess að koma atvinnulífinu af stað og skapa ný störf. Fólk er búið að taka á sig miklar kjaraskerðingar og til framtíðar sjáum við að það þarf að bæta kjörin. Það sem er nærtækast er að koma fólki af atvinnuleysisbótum og í vinnu. Það er númer eitt, tvö og þrjú.

Hvernig þetta kemur heim og saman við stöðuna í haust þegar samningar losna er ekki gott að segja því að það snýst þá fyrst og fremst um framhaldið, um næstu árin. Ég finn að það er mikið óþol í fólki. Ég held að óþolið sé fyrst og fremst vegna þess að það gæti verið að ganga betur. Þótt að það sé margt sem að hefur gengið betur en við héldum gæti samt verið að ganga enn þá betur.

Eldgosið gerir okkur mikla skráveifu en ef Guð lofar hættir það fyrr en seinna og þá getur ferðaþjónustan tekið við sér aftur. Það væri óskastaða.“

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert