Auglýsingar um 100% örugga ávöxtun bannaðar

Neytendastofa hefur bannað fyrirtækinu Sparnaði ehf. að auglýsa 100% fjármögnunarvernd og því sé 100% örugg ávöxtun á viðbótarlífeyrissparnaði.

Neytendastofu barst kvörtun frá Landsbankanum vegna auglýsinganna. Segir Neytendastofa, að um sé að ræða viðbótarlífeyri sem ávaxtaður er í Þýskalandi og því taki íslenskir neytendur ávallt á sig ákveðna gengisáhættu. Þrátt fyrir að tryggð sé ákveðin ávöxtun eigi það við um sparnaðinn í evrum. Neytendur á Íslandi verði að kaupa evrur fyrir íslenskar krónur þegar sparnaðurinn sé lagður fyrir og selja evrur fyrir íslenskar krónur þegar sparnaðurinn sé tekinn út. Áhætta vegna misræmis í gengi sé á neytendum og því taldi Neytendastofa fullyrðinguna ekki geta staðist.

Þá taldi stofnunin að þar sem fullyrt hafði verið að ávöxtunin væri örugg væri það brot á lögunum að greina ekki frá því að neytendur tækju á sig gengisáhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert