Landspítalinn sameinar í dag þrjár dauðhreinsunardeildir spítalans á Tunguhálsi og hefur dauðhreinsunardeildum í Fossvogi og við Hringbraut verið lokað.
Markmiðið með sameiningu deildanna er að ná fram hagræðingu, sparnaði og auka fagleg gæði. Starfsemi deildarinnar er margvísleg og er henni ætlað að þjóna skurðdeildum spítalans sem og öðrum deildum hans. Einnig selur deildin þjónustu til heilsugæslustöðva og sjálfstætt starfandi læknastöðva, að því er segir í fréttatilkynningu frá spítalanum.
Starfsemi deildarinnar felur meðal annars í sér dauðhreinsun á verkfærum sem notuð eru við skurðaðgerðir og sáraskiptingar, framleiðslu á einnota dauðhreinsaðri vöru, svo sem grisjum og pökkum sem innihalda margnota sloppa og lök.
Starfsmenn deildarinnar eru 19 talsins, deildarstjóri er Hrönn Harðardóttir, aðstoðardeildarstjóri Magnea B. Högnadóttir og verkefnisstjóri Margrét Ó. Magnúsdóttir.