Embættismenn á nefndarfund

mbl.is/Ómar

Upplýst var á fundi efnahags- og skattanefndar, að Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabankans átti í samskiptum við aðstoðarmann forsætisráðherra og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og viðskiptaráðuneytis í aðdraganda þess að Már Guðmundsson var ráðinn seðlabankastjóri á síðasta ári.

Að sögn Birkis Jóns Jónssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, sem óskaði eftir fundi í nefndinni um launakjör seðlabankastjóra, upplýsti Lára á fundinum að það hefði legið fyrir fyrirheit til Más um launakjör. Lára hefði jafnframt sagt að hún hefði ekki upplýsingar um hver veitti það fyrirheit. 

Birkir segir að á fundinum hafi komið fram, að til eru tölvupóstsamskipti um málið og hefur hann óskað eftir því að efnahags- og skattanefnd fái aðgang að þessum tölvupóstum. Þá hefur Birkir einnig óskað eftir því að annar fundur verði haldinn um málið þar sem fyrrgreindir embættismenn verði boðaðir auk Ragnars Árnasonar, sem situr í bankaráði Seðlabankans en hann komst ekki á fundinn í dag.

„Það er alveg ljóst, að einhver lofaði seðlabankastjóranum því, að hann héldi óskertum launum en ekki er ljóst enn hver gaf það loforð," sagði Birkir Jón að loknum fundi efnahags- og viðskiptanefndar. „Þetta var aðeins fyrsti fundurinn um þetta mál. Sú leyndarhyggja, sem vofir yfir þessu máli er með öllu óviðunandi og við hljótum að gera þá kröfu, alþingismenn, til ráðherra um að hið sanna komi í ljós." 

Lára V. Júlíusdóttir lagði í apríl fram tillögu í bankaráði Seðlabankans nýlega um að hækka laun Más Guðmundssonar um 400 þúsund krónur á mánuði og vísaði til fyrirheita sem Már hefði fengið um að launakjör hans héldust óbreytt. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur ítrekað vísað því á bug, að hún hafi nokkuð haft með ráðningu og kjör seðlabankastjóra að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert