Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar 2009 höfðu 7,1% heimila lent í vanskilum með húsnæðislán/leigu á undanförnum 12 mánuðum og 10,3% heimila höfðu lent í vanskilum með önnur lán á sama tímabili. Árið 2009 áttu 39% heimila erfitt með að ná endum saman.
Fram kemur á vef Hagstofunnar, að 15% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og svipað hlutfall heimila taldi greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána/leigu vera þunga. Tæp 30% heimila gátu í ársbyrjun 2009 ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 130 þúsund með þeim leiðum sem þau venjulega nýta til að standa undir útgjöldum.
Þegar heildarmyndin er skoðuð var fjárhagsstaða heimilanna verri í ársbyrjun 2009 en næstu ár á undan. Einstæðir foreldrar voru helst í fjárhagsvandræðum í ársbyrjun 2009. Barnlaus heimili þar sem búa fleiri en einn fullorðinn stóðu best fjárhagslega.
Þegar heimili voru greind eftir meðalaldri fullorðinna einstaklinga virðast heimili með meðalaldurinn 30–39 ára vera í mestum erfiðleikum. Almennt má segja að því hærri sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga er á heimilinu því betur virðast heimilin vera stödd fjárhagslega.
Fjárhagsstaða
heimilanna 2004-2009