Forstjóri Símans lagði mikla áherslu á aðgerð, sem nefnd var „Nova stórnotendur," og hrósaði starfsfólki fyrirtækisins fyrir góðan árangur í þessum aðgerðum gegn Nova. Samkeppniseftirlitið lýsti því yfir í dag, að umrædd aðgerð hafi líklega verið ólögmæt misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Í bráðabirgðaniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins kemur fram, að Síminn hafi nýtt sér svokallaðar umferðarupplýsingar en þær fela m.a. í sér upplýsingar um magn umferðar inn í net Símans úr númerum Nova. Slíkar upplýsingar liggi fyrir í heildsölu Símans en þær séu m.a. skráðar til að gjaldfæra lúkningargjöld og nauðsynlegar til framkvæmdar á fleiri þáttum í samtengisamningi á milli fyrirtækjanna á heildsölustigi.
Samkeppniseftirlitið segir, að Síminn hafi útbúið lista, sem hafi að geyma sundurgreinanlegar upplýsingar um mörg þúsund viðskiptavina Nova. Segir stofnunin, að umræddir listar geymi ekki aðeins upplýsingar um símanúmer og nöfn viðkomandi viðskiptavina Nova heldur jafnframt kennitölur, heimilsföng og í mörgum tilvikum starfsheiti þeirra. Auk þess komi fram upplýsingar um fjölda símtala hvers og eins, lengd þeirra í mínútum eða sekúndum og lengd meðalstímtals. Á grundvelli þessara upplýsinga gat Síminn beitt sér gagnvart mikilvægum viðskiptavinum Nova. Síminn hefur jafnframt útbúið sambærilega lista yfir verðmæta viðskiptavini hjá öðrum keppinautum á farsímamarkaði.
Póst og fjarskiptastofnun segir, að að í ljósi markaðsráðandi stöðu Símans á fjarskiptamarkaði þurfi flest ef ekki öll fjarskiptafyrirtæki með einum eða öðum hætti að eiga viðskipti við félagið, t.d. um samtengingu, aðgang að aðstöðu eða innviðum fjarskiptaneta. Því hvíli á fyrirtækinu ríkar trúnaðarskyldur. Hafi Póst- og fjarskiptastofnun sérstaklega tiltekið að fyrirtækið skuli virða trúnaðarskyldur í samningum sínum við önnur fjarskiptafyrirtæki.
Samkeppniseftirlitið segir því sennilegt, að notkun Símans á þessum trúnaðarupplýsingum til aðgerða gegn m.a. Nova sé ólögmæt. Markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki beita neinum óeðlilegum eða ólögmætum aðgerðum til þess að verja eða styrkja ráðandi stöðu sína.
Samkeppniseftirlitið segir, að fyrirliggjandi gögn í málinu sýni að á því tímabili sem um ræði, hafi hjá söludeild Símans verið lögð mikil áhersla á góðan árangur af aðgerðinni „Nova stórnotendum".
Þessu til stuðnings er nefnt, að í tölvupóstsamskiptum milli deildarstjóra og sölustjóra Símans, þar sem umræddur listi yfir viðskiptavini Nova var sendur, komi fram að forstjóri Símans hafi lagt mikla áherslu á þessa aðgerð. Því bað deildarstjórinn sölustjórann um að setja aðeins allra bestu starfsmennina í verkefnið.
Þá var forstjórinn jafnframt upplýstur reglulega um gang þessa verkefnis með skýrslugjöf yfir árangur þess, þ.e. hversu marga viðskiptavini Nova hefði tekist að ná sambandi við og hversu margir hefðu samþykkt flutning á farsímaþjónustu yfir til Símans. Auk þess var tekið fram hvaða aðrar þjónustur Símans hefði tekist að selja um leið. Í svarpóstum sínum við þessari skýrslugjöf hrósaði forstjóri umræddu starfsfólki fyrir góðan árangur í þessum aðgerðum gegn Nova.