Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli hefur minnkað til muna og er orðinn ljósari. Flugmenn hafa þó sent Veðurstofunni tilkynningar um að mökkurinn hafi í morgun náð 3-3,5 km hæð.
„Ég er ekki tilbúin til að lýsa því yfir að þessu gosi sé að ljúka," sagði Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hún sagði þó ljóst, að mjög hefði dregið úr gosmekkinum síðustu daga og einnig úr gosóróa og hraunrennsli.
Skjálftavirkni hefði aukist aðeins í morgun en skjálftarnir hefðu verið grunnt í gosrásinni og ekkert benti til þess, að kvika væri að koma frá neðri jarðlögum.
Steinunn sagði, að verið væri að kanna hvort hægt yrði að fljúga yfir gosstöðvarnar í dag en ástæða væri til þess vegna þess hve miklar breytingar hefðu orðið á gosinu síðustu sólarhringa.