Jón Gnarr: „Ég er stoltur“

Jón Gnarr er oddviti Besta flokksins.
Jón Gnarr er oddviti Besta flokksins. mbl.is

„Ég er fyrst og fremst upp með mér og stoltur yfir því trausti sem er verið að sýna mér,“ segir Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, aðspurður um þá niðurstöðu nýrrar könnunar Stöðvar 2 og Fréttablaðsins að flokkurinn fengi 8 menn og þar með hreinan meirihluta í Reykjavík.

- Nú bendir allt til þess að þú verðir borgarstjóri. Ef við byrjum á skuldamálunum eru samanlagðar skuldir A og B hluta borgarsjóðs yfir 10 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni. Hvað ætlar Besti flokkurinn að gera til að grynnka á skuldunum?

„Það þarf að setjast yfir þetta og skoða þetta.“

- Eru einhverjir sérstakir málaflokkar þar sem þú telur svigrúm til sparnaðar?

„Við vorum að birta aðgerðaáætlun í dag á heimsíðu okkar þar sem við erum komin með nokkrar tillögur.“

- Nú er ljóst að borgin hefur haldið upp háu þjónustustigi. Hvernig myndi Besti flokkurinn halda uppi sömu þjónustu á sama tíma og það blasir við að mikils aðhalds er þörf, jafnvel niðurskurðar?

„Við ætlum að reyna að ná fram hagræðingu með svona ömmuhagfræði.“

- Hvað felst í henni?

„Ábyrgð og ráðdeild. Við ætlum að spara eins og íslenskar mæður hafa gert í gegnum aldirnar án þess að vera vondar við börnin sín.“

- Myndi flokkurinn þinn lofa að hækka ekki álögur á kjörtímabilinu eða getið þið ekki útilokað það?

„Það er ekki í stefnu okkar að hækka álögur heldur frekar að reyna að draga úr þeim.“

- Þannig að þið ætlið að draga úr álögum á sama tíma og þið ætlið að lækka skuldir borgarinnar?

„Já, við ætlum að reyna það.“

- Orkumálin og málefni Orkuveitunnar hafa verið í brennidepli. Hvaða stefnu hefur flokkur þinn í þessum málum?

„Það er stórt vandamál sem þarf að setjast yfir hvernig komið er fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Það þarf að setjast yfir það skoða það mál allt saman.“

- Hverjar eru áherslur flokksins í velferðarmálum?

„Bara að reyna að gera vel við alla.“

Heimasíða Besta flokksins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert