Norski lögmaðurinn Morten Furuholmen, sem kom hingað til lands í febrúar ásamt leiðtoga norskra vítisengla, var í dag dæmdur í 6 mánaða fangelsi í Noregi fyrir grófa tilraun til hylmingar. Furuholmen er einn kunnasti sakamálalögmaður Noregs.
Fram kemur á fréttavef Aftenposten, að Furuholmen hafi aðstoðað mann, sem síðar hlaut dóm, til að innheimta 5 milljónir króna. Taldi áfrýjunardómstóll að Furuholmen og annar lögmaður, sem tengdust málinu, hefðu átt að vita að þessir peningar voru illa fengnir.
Lögmaður Furuholmens segir að dómnum verði áfrýjað til hæstaréttar Noregs. Verði dómur áfrýjunardómstólsins staðfestur á Furuholmen á hættu að vera sviptur lögmannsréttindum sínum.
Furuholmen kom hingað til lands í febrúar með Leif Ivar Kristiansen, leiðtoga norskra vítisengla en Kristiansen var þá ekki hleypt inn í landið. Furuholmen hefur síðan lagt fram kæru á hendur íslenskum stjórnvöldum.