Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafi verið heimild að leggja hald á 92 milljóna króna inneign félags í tengslum við rannsókn á sölu á húsnæði til kínverska sendiráðsins.
Féð var inni á reikningi í eigu AK fasteigna en það er félag í eigu Karls Steingrímssonar og Arons Karlssonar. Er verið að rannsaka hvort fjársvik hafi verið framin í tengslum við söluna á húsinu.
Forsaga málsins er sú að fasteignin við Skúlagötu 51 var í eigu félagsins Vindsúla en þar voru Aron og Karl í forsvari. Fasteignin var veðsett fyrir rúman milljarð króna vegna lána í Arion banka, Íslandsbanka og Glitni. Um miðjan desember sl. var gengið að tilboði frá indversku fyrirtæki í fasteignina fyrir 575 milljónir króna. Bankarnir féllust á þessa sölu. Skömmu síðar var hins vegar samþykkt tilboð frá kínverska sendiráðinu upp á 875 milljónir. Í millitíðinni var búið að færa fasteignina í nýtt félag, 2007 ehf., í eigu sömu aðila, en félagið heitir núna AK fasteignir.
Lögmaður bankanna þriggja kærði málið til ríkislögreglustjóra eftir voru sagðar af málinu í Ríkisútvarpinu en bankarnir höfðu enga vitneskju um tilboð Kínverjanna eða flutning eignarinnar milli félaga. Bankarnir töldu að þeir hefði verið hlunnfarnir um 300 miljónir króna.