Harpa, tónlistar og ráðstefnuhús í Reykjavík, verður kynnt í næstu viku í Frankfurt í Þýskalandi á ferðakaupstefnu. Þar verður nýtt merki Hörpu notað í fyrsta sinn í markaðs- og kynningarstarfi fyrir nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Markaðsstarf í þágu Hörpu er á fullu skriði og áhugi mikill fyrir húsinu til ráðstefnuhalds og tónlistarflutnings. Erlendis má marka greinilegan áhuga fagtímarita á húsinu og m.a. hafa fulltrúar stærstu tímarita á ráðstefnu- og hvataferðamarkaðnum heimsótt húsið.
Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, verður opnað við hátíðlega athöfn á vordögum 2011," segir í fréttatilkynningu.
Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær kom fram að stofnkostnaður við byggingu hússins verður að minnsta kosti 27,5 milljarðar króna. Af því fé voru tveir milljarðar í reiðufé lagðir inn af Portus og Landsbanka, en afgangurinn hefur verið tekinn að láni.
Skuldir vegna byggingarinnar nema því nú um 25,5 milljörðum króna að nafnvirði. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að áætlaður rekstrarkostnaður tónlistarhússins sé um milljarður króna á ári.