Skýrsla um Álftanes birt eftir kosningar

Frá Álftanesi.
Frá Álftanesi.

Á fundi bæjarstjóra Álftaness með Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og fleirum fyrr í dag var upplýst að rannsóknarskýrsla, sem samkomulag var um að gerð yrði, verður ekki birt fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningarnar eftir viku.

Í tilkynningu frá meirihlutanum í bæjarstjórn Álftaness segir, að eftirlitsnefndin hafi falið Ríkisendurskoðun að gera skýrsluna á grundvelli samkomulags nefndarinnar og bæjarstjórnar í desember. Verkefni Ríkisendurskoðunar sé að fara yfir hvaða einstöku ákvarðanir hafi leitt sveitarfélagið í þá fjárhagslegu stöðu sem það standi nú frammi fyrir, hvort umræddar ákvarðanir hafi verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og hvort upplýsingaskyldu hafi verið sinnt með lögmætum hætti. Rannsóknin nær yfir tímabilið 1. janúar 2005 til dagsins í dag.

Meirihlutinn segist hafa lagt á það ofuráherslu, að rannsóknarskýrslan lægi fyrir tímanlega fyrir bæjarstjórnarkosningar. Eðli máls samkvæmt hafi það verið krafa Álftnesinga að skýrslan væri fullgerð og til sýnis í bæjarstjórn og öllum öðrum, í síðasta lagi nú um miðjan mánuðinn. Sé það forsenda þess að kjósendur gætu tekið upplýsta ákvörðun á kjördag.

„Við lýsum miklum vonbrigðum okkar, í ljósi hrikalegrar stöðu bæjarsjóðs, á því að enn sé bið eftir að skýrslan verði lögð fram. Þessi staða málsins bíður upp á órökstuddar getgátur sem vel hefði verið hægt að komast hjá. Bæjarstjóri, fjármálastjóri og bæjarfulltrúar hafa lagt sig fram um að gefa allar þær upplýsingar sem fært hefur verið, með viðtölum og samantekt ýmissa gagna.

Afar sérstakt er að einn aðili sem hljóti að vera til rannsóknar, þ.e. Eftirlitsnefndin, sé komin með skýrsludrög til athugasemda, þegar aðrir þeir er skýrslan beinist að hafi ekki fengið að líta hana augum. Getur skýrslan með þessu vinnulagi orðið hlutlaus gagnvart Eftirlitsnefndinni en undirritaðir bæjarfulltrúar hafa sett fram sterka gagnrýni á hversu seint Eftirlitsnefndin kom að málefnum Álfaness?

Enn standa vonir til þess að skýrslan verði lögð fram íbúum Álftaness til upplýsinga, þannig að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun á kjördag um framtíð sína," segir í tilkynningunni.

Undir hana skrifa Kristinn Guðlaugsson, forseti bæjarstjórnar, Margrét Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, Guðmundur G. Gunnarsson, bæjarfulltrúi og Sigríður Rósa Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka