Á hverju ári er 26 milljónum tonna af fiski landað ólöglega í höfnum heimsins, að því er fram kemur í nýrri rannsókn. Árni Múlí Jónasson, fiskistofustjóri kveðst styðja hertar aðgerðir gegn ólöglegri löndun:
„Auðvitað erum við á því að allt sem lýtur að því að styrkja eftirlit sé af hinu góða. Þá á ég við eftirlit sem getur komið í veg fyrir ólöglegar veiðar. Það hlýtur að vera af hinu góða. Við teljum hvað okkur verðar að þá sé þetta tekið alvarlega. Við reynum að hafa stjórn á löndun og erum þegar aðilar að samningum sem leggja skyldur á okkar herðar í þeim efnum. Þótt þeir samningar séu ekki alþjóðlegir eru þeir fjölþjóðlegir, á því svæði sem helst hefur þýðingu fyrir okkur.“ sagði Árni.
Hann sagði, að sjálfsagt væri rétt, sem kæmi fram í skýrslunni, að víða sé pottur brotinn. „Hvað varðar landanir á Íslandi á svona afla að þá teljum við að við séum með nokkuð gott eftirlit með því. Síðan eru strangar reglur um landanir íslenskra skipa. Almennt séð er reglan sú fyrir Ísland að afli sem er fenginn hér við land á að vera vigtaður og skráður á Íslandi [...] Þannig að við teljum okkur halda vel utan um íslensk skip.“
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í vísindaritinu Science en það voru fræðimenn á vegum bandarísku hugveitunnar Pew Environment Group sem stóðu að henni.
Helstu niðurstöðurnar eru að 26 milljónum tonna af fiski sé landað ólöglega ár hvert, að andvirði hátt í 3.000 milljarða króna.
Mælast vísindamennirnir til þess að alþjóðlegu eftirlitskerfi verði komið á til að berjast gegn slíku ólöglegu athæfi.